Slogan
Vefkerfi eftir þínu sniði
Neytendastofa

Neytendastofa tók til starfa 1. júlí 2005 samkvæmt lögum nr. 62/2005. Neytendastofa er ein þeirra eftirlitsstofnana sem hafa eftirlit með viðskiptalífinu og lögum frá Alþingi sem sett eru vegna öryggis og réttinda neytenda. Neytendastofa heyrir undir iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.


Verkefnið

Í tengslum við uppsetningu á nýrri heimasíðu vildi Neytendastofa auðvelda viðskiptamönnum stofnunarinnar að nálgast upplýsingar og þjónustu með því að opna rafræna þjónustugátt. Talið var mikilvægt að viðskiptamenn (almenningur) gætu lagt inn ábendingar til Neytendastofu og að þeir gætu haft aðgang að yfirliti um stöðu erinda hjá Neytendastofu.

Lögð var áhersla á að hægt væri að nýta eina, sameiginlega rafgátt fyrir öll svið Neytendastofu og alla viðskiptavini, þó svo að þeir hafi mismunandi þarfir.

Framkvæmdin

Á innan við 4 vikum frá undirritun samnings var rafræna þjónustugáttin að mestu tilbúin til notkunar. Rétt fyrir opnun var gáttin tengd við nýju heimasíðuna og á innan við 2 dögum var öllu snarað yfir á ensku.

Lausnin byggir á staðlaðri þjónustugátt idegaWeb eGov. Hannað var nýtt útlit á gáttina og hún sniðin að óskum Neytendastofu. Erindakerfi idegaWeb eGov var sett upp í gáttinni og það aðlagað sem ábendingakerfi.

Frá byrjun voru settar upp þrjár mismunandi gáttir fyrir ólíka notendahópa, neytendagátt fyrir hinn almenna neytanda, rafverktakagátt fyrir löggilta rafverktaka sem hafa mikil samskipti við stofnunina og veitugátt fyrir verðbreytingar rafveitna sem uppfæra reiknivél á síðu Neytendastofu. Gáttirnar eru mismunandi og aðgangsstýringar hópa stýra hvaða gátt notendur fá. Á bak við neytendagáttina er þjóðskrá og fólk stofnar sjálft sína gátt. Löggiltir rafverktakar og veitur fá hinsvegar fyrirfram stofnaðan notendaaðgang.

Starfsmenn Neytendastofu fá aðgang og réttindi á kerfið í samræmi við verksvið hvers og eins. Stafsmenn vinna úr ábendingum og upplýsingar flæða á milli stofnunarinnar og viðskiptavina um gáttina og í tölvupósti.

Lausnin er hýst og rekin hjá ANZA.

Niðurstaðan

Rafræn Neytendastofa var opnuð með viðhöfn af iðnaðar- og viðskiptaráðherra 5. janúar 2007. Nokkrum dögum eftir opnun höfðu viðskiptavinir stofnað nokkra tugi neytendagátta og sent inn ábendingar til stofnunarinnar.

Með því að nýta þá grunngerð sem felst í Rafrænni Neytendastofu var unnt að innleiða sjálfvirka uppfærslu gagna í reiknivél fyrir orkuverð á mun einfaldari og hagkvæmari hátt en áætlanir um aðrar leiðir gerðu ráð fyrir.

Með rafverktakagáttinni er tekinn upp samskiptamáti fyrir samskipti sem ekki eru stjórnsýslumál, en er þó þess eðlis að stofnunin vill hafa greinargott yfirlit yfir þessi erindi. Með þessu móti eykst skilvirkni hjá stofnuninni og hraði í samskiptum.

Rafrænu Neytendastofu hefur verið afar vel tekið og fyrirhugað er að setja upp nýjar gáttir fyrir öll önnur starfssvið stofnunarinnar.

Efst á síðu
Footer
©2009 Allur réttur áskilinn IOS hugbúnarður ehf. | Brautarholt 10-14 | 105 Reykjavík | Sími 554 7557 | Hafðu samband